Breytingarskeið karla og kvenna

Úr því  að það  er búið að tala svo  mikið um breytingarskeið hjá konum þá ætla ég að byrja á körlunum.   Þá segja sumir: “það er ekkert breytingarskeið hjá körlum, þetta er bara öldrun”.  Ég held það skipti ekki máli hvað við köllum þetta, bara að við séum meðvituð um hvað geti  komið upp og hvað við getum gert til að hjálpa.

Það sem karlar finna helst fyrir er bólginn blöðruhálskirtill og sýking í blöðruhálskirtli. Vandamál sem fylgja þessu eru: minni þvagbuna, tíðari þvaglát, stundum verkir, oft minni eða engin kyngeta, minnisleysi, minnkað sjálfsöryggi, menn verða viðkvæmari fyrir áreyti frá umhverfinu, kvíði, stress, svitaköst, ör hjartsláttur, minni áhugi á kynlífi, líkamlegt þróttleysi, þunglyndi og geðsveiflur.

Hormónabreytingar gerast miklu hægar hjá körlum en konum. Um þrítugt dregur úr framleiðslu á testosteroni og hún minnkar smátt og smátt.  Það er svo ekki fyrr en upp úr fimmtugt sem karlar fara að finna fyrir þessum breytingum. Annars er það mjög misjafnt hvenær karlmenn finna fyrir breytingum eða hvort þeir gera það yfirleitt. Sumir vilja svo ekki viðurkenna að það verði einhverjar breytingar.

Ef við berum saman vandamálin sem koma upp á breytingaraldrinum hjá konum og körlum eru þau ekkert ósvipuð ef horft er framhjá þeim kvillum sem að fylgja hverju kyni. Konur finna einnig fyrir geðsveiflum, svitakófum, minnisleysi, örum hjartslætti, minna sjálfsöryggi, kvíða, þunglyndi og líkamlegu þróttleysi. Hjá konum dregur skyndilega úr framleiðslu á hormónum og af þeim sökum geta kvillarnir oft orðið verri (dramatískari) en hjá körlum. Við minni estrogen framleiðslu þá dregur úr blæðingum, slímhúðin þynnist í leggöngunum og kalk helst ekki eins vel í beinum eins og það gerði.

Það er einkum vegna beinþynningar sem læknar leggja svona mikla áherslu á nauðsyn þess að taka hormóna. En það er vel hægt að nota náttúruna til að hjálpa sér. Meðal annars er hægt að taka inn jurt sem er íslensk og heitir Klóelfting. Hún myndar kalk úr öðrum efnum, þ.e. 1 jón af magnesíum (24) + 1 jón af súrefni (16) sem gerir massatöluna 40, sem er massatala kalks. Þetta gerist líka með 1 jón af kísil (28) + 1 jón kolefni (12) sem gerir massatöluna 40.  Klóelftingin inniheldur mikið magn af kísil sem styrkir margt í líkamanum, m.a. allan bandvef í líkamanum, sinar, húð, hár og neglur. Kísillinn hjálpar einnig konum sem hafa ekki nógu sterka vöðva í þvagblöðrunni, er til varnar gegn kölkunar á æðum og er næringarefni fyrir lungnavefina. Ekki er hægt að hengja alla þessa kvilla á minnkaða framleiðslu af hormónum, orsakirnar geta líka verið félagslegar, andlegar og líkamlegar og á þá bæði við um karla og konur. Fáir vita að það eru til frábærar jurtir við flestum þessum kvillum sem ég hef talið upp hér að ofan.

Hormónar hafa verið gefnir við breytingarskeiði karla sem hafa þá aukið orkuna, kyngetu, beinmassa, vöðvamassa og minnkað þunglyndi. En þetta hefur ekki verið mikið notað hér á landi.

Hér á eftir mun ég tilgreina helstu jurtirnar sem ég nota við vandamálum samfara breytingaraldrinum.

FREYSPÁLMI (Serenoa repens): Hann virkar örvandi á eistun sem veldur því að framleiðsla á hormónum eykst. Einnig hefur jurtin styrkjandi áhrif á blöðruhálskirtilinn, dregur úr bólgum í blöðruhálskirtlinum og er gefinn bæði konum og körlum. Að ég best veit þá hafa engar nákvæmar rannsóknir verið gerðar á freyspálmanum og eina reynslan af notkun hans er löng klínísk notkun á honum.

VALLHUMALINN (Achillea millefolium): Hann nota ég til þess að styrkja blá- og slagæðlingana og er það oft góð hjálp við getuleysi hjá karlmönnum. Vallhumalinn er einnig hægt að nota við æðahnútum bæði hjá konum og körlum.

HESTAKASTANÍA (Aesculus hippocastanum): Hún er notuð í þeim tilfellum þar sem að styrkja þarf  bláæðarnar til hjálpa gegn getuleysinu. Hún inniheldur efnið Aescin sem hindrar ensímið hyaluronidase í að brjóta niður hyaluronic sýru, sem er efni sem að heldur æðunum saman. Þessa jurt er þá líka hægt að nota gegn æðahnútum.

JÁRNURT (Verbena officinalis): Hana nota ég gegn þunglyndi. Hér hef ég heldur ekki neina rannsókn til að styðjast við nema langa klíníska notkun. Það sem þessi jurt er sögð gera er að örva hugann með því að skerpa hugsunina. Hún örvar einnig lifrina og það er eins og við það hjálpi hún, oft á tíðum, heilmikið við þunglyndi.  

JÓNSMESSURUNNI (Hypericum perforatum): Er jurt sem að ég nota mikið fyrir konur á breytingarskeiði. Hún er róandi og nærir líka taugarnar og er þar af leiðandi góð gegn þunglyndi, minnkuðu sjálfsöryggi, viðkvæmni og stressi. Það er efnið hypericin sem virkar gegn þunglyndi í Jónsmessurunnanum.

MARÍUSTAKKUR (Alchemilla vulgaris) og MÓÐURJURT (Leonurus cardiaca): Þær nota ég fyrir svitakófin, sem fylgja oft breytingarskeiðinu, enda vinna þessar tvær mjög vel saman en einnig er hægt að nota fleiri jurtir. Maríustakkinn er einnig hægt að nota gegn of miklum blæðingum og óreglulegum blæðingum sem oft eru hjá konum á þessum aldri. Hún inniheldur plöntuestrogen líka hormóna og er það líklega ástæðan fyrir þessari góðu virkni á kvilla sem tengjast minni framleiðslu á kynhormónum. Einnig er hægt að nota salviu, nema að hana er ekki æskilegt að taka innvortis nema í fjórar vikur og hámark í þrjá mánuði, fyrir hrausta einstaklinga. Ástæða þessa er út af thujone olíu sem er í kjarnaolíunni í salviu jurtinni og ertir hún nýrun við langvarandi notkun. Salvian inniheldur einnig plöntuestrogen líka hormóna og því slær hún mjög á svitakófin.

HAFRAR (Avena satina): Þetta er líklega uppáhalds jurtin mín og hana nota ég til þess að næra taugakerfið innan frá. Það eru glycosídar sem eru virku efnin en þeir tapast við suðu.   Það er helst að nota heila hafra og búa til graut úr þeim að eitthvað af virku efnunum varðveitist. Annars er fullt af öðrum góðum efnum í höfrunum eins og járn, kalk, kopar, magnesíum, sink, B-vítamín, kísill og mjög hátt hlutfall af próteini og fitu. Þetta þýðir að í höfrum er mjög góð næring til þess að byggja okkur upp fyrir amstur dagsins og fyrir áreiti frá frá umhverfinu og af því leiðir að þunglyndi og stress minnka, sjálfsöryggi eykst og einstaklingurinn verður sterkari fyrir því sem er að gerast í kringum hann. Hafrarnir geta líka aukið kyngetu hjá karlmönnum.
Hafa verður í huga að jurtir flytja ekki fjöll en þær efla og styrkja taugakerfið og við það verður maður og virkari. Jurtirnar framkvæma hins vegar ekki hlutina fyrir mann.

ENGIFER (Zingiber officinale): Ég nota mikið af engifer til þess að örva blóðrásina, bæði hjá konum og körlum. Engiferinn er þurrkaður og þannig örvar hann blóðrásina. Við það hækkar hitastig líkamans án þess þó að svitamyndun verði. Mjög lítinn skammt þarf af engifer í einu og ef hann er í duftkenndu formi þá þarf  aðeins að setja hann framan á hnífsodd og sett út í einn tebolla af vatni.  

MUSTERISTRÉ (Ginkgo biloba): Þetta er jurt sem að mig langar núna til þess að minnast á og sem að margir kannast kannski við. Hún örvar æðakerfið og þá sérstaklega þær æðar sem liggja upp til heilans og er því góð við minnisleysi. Musteristréð örvar einnig blóðrásina í fótleggjunum. Hérna langar mig aðeins til þess að staldra við og útskýra hvernig útlit jurtarinnar er. Laufblaðið er eins og þverskurður af heila sem segir okkur helmikið um það hvernig nota megi jurtina.

MUNKSPIPAR (Vitex agnus-castus): Hann hefur eitthvað verið notaður til þess að koma reglu á tíðablæðingar, eitthvað hér á landi en mikið erlendis. Það sem að hann gerir er að örva heiladingulinn og jafna hormónastarfsemina í líkamanum. Þetta fer þannig fram að heiladingullinn sendir boð niður til eggjastokkanna um að þeir eigi að framleiða meira estrogen. Það er afar einfalt að taka þessa jurt inn vegna þess að hana þarf einungis að taka inn einu sinni á dag ólíkt öllum hinum sem ég hef þegar nefnt, þær þarf að taka inn þrisvar sinnum á dag.

Eftir að hafa talið upp þessar jurtir sem styrkja líkamann langar mig til þess að benda á það að langbest er að nota fyrirbyggjandi aðferðir gegn vandamálum sem kunna að koma upp á breytingaraldrinum. Maður ætti að byrja sem fyrst að byggja upp líkamann og búa hann undir átökin við minnkandi hormónaframleiðslu jafnvel upp úr tvítugt. Uppbyggjandi aðferðir eru m.a. eftirfarandi:

1. Hreyfing: Hún er eitt af því mikilvægasta sem maður gerir til þess að halda líkamanum okkar í góðu formi. Þá þarf maður að velja hreyfingu sem hentar hverjum og einum. Eitt getur verið gott fyrir einn en slæmt fyrir annan og því er mikilvægt að finna líkamsæfingar við hæfi. Dæmi um góðar æfingar eru: göngutúr, sund, hlaup, golf, leikfimi og hjólreiðar. 
Rannsóknir hafa sýnt fram á að æfingar viðhalda kalki í beinum, minnka svitakóf, sem verða á breytingaraldrinum og auka almennt á vellíðun manna. Konur sem hafa stundað reglulega hreyfingu hafa sýnt að þær fá miklu síður kvillanna sem að fylgja breytingaraldrinum.

2.  Mataræði: Það besta varðandi mataræðið er auðvita að útbúa hann að mestu sjálfur. Ráðlagt er að hafa eins fjölbreytt mataræði og hægt er til að fá sem flest næringarefni úr fæðunni. Einnig ætti maður að borða minni fitu og að borða reglulega. Hafragrautur er sígildur og mjög góður þar sem að hann inniheldur, eins og ég nefndi hér að ofan, plöntuestrogen líka hormóna en þá er einnig að finna í fleiri jurtum eins og fenel, sellerý, steinselju, hnetum, fræjum, eplum, alfalfa og sojavörum.

3.  Jákvætt hugarfar: Hugarfarið skiptir miklu máli varðandi heilsu. Það má nota ýmis hjálpartæki til þess að róa og styrkja hugann. Þar á meðal getur verið gott að hlusta á góða tónlist, hreyfa sig, fara í göngutúr og það að stunda jóga er einnig góð leið til þess að styrkja og róa hugann.

4.  Bætiefni: Þau eru helst fyrir fólk sem hefur ekki mjög góða matalyst eða borðar ekki nógu fjölbreytta fæðu. Vítamín eru einnig tekin inn til þess að styrkja einhver líffæri svo sem eins og sink, sem virkar á blöðruhálskirtilinn og E-vítamín sem styrkir æðakerfið og er gott fyrir bæði kynin, en það örvar einnig slímhúðina í leggöngum kvenna.

Heilræði:   Höldum heilastarfseminni virkri með lestri og verkefnum sem nota verður hugsunina við, því að þá getum við komið í veg fyrir minnisleysi á efri árum og munið AÐ ÞAÐ ER ALDREI Of SEINT AÐ BYRJA Á ÞVÍ AÐ EFLA LÍKAMA OG SÁL. 

GANGI YKKUR VEL!

Til baka

Bætt í körfu!

Jurtaapótek

jurtaapotek@jurtaapotek.is

Laugavegi 70
101 Reykjavík
Sími 552 1103

Opnunartími

10-18 virka daga
10-16 föstudaga
11-14 laugardaga

© Jurtaapótek 2025, allur réttur áskilinn