Allt um föstu

Áður fyrr hreinsuðu forfeður okkar líkama sinn á hverju vori  til að hreinsa burtu eiturefni sem safnast höfðu yfir veturinn. Þetta var gert til að mynda pláss fyrir aukna orku. Hreinsunin var framkvæmd í gegnum föstu, svita og stundum með losandi efnum. Í mörgum samfélögum var þetta tími andlegrar eflingar.

Á 21. öldinni er fasta enn mjög mikilvæg og jafnvel enn mikilvægari en áður fyrr. Hvar og hvernig sem við lifum þá komumst við alltaf í snertingu við eiturefni, sem hafa slæm áhrif á líkamann. 

Það eru margar leiðir til að afeitra líkamann.  Eftirfarandi er tillaga að hreinsiprógrammi sem er öruggt og ekki of erfitt að fylgja.
 

Áður en þú byrjar skaltu athuga að í eftirfarandi tilfellum er ekki ráðlegt að fasta:

1.      Ef kona er ófrísk eða með barn á brjósti. Eiturefni fara í gegnum fylgjuna og einnig í gegnum
         móðurmjólkina yfir til barnsins. Ungt barn hefur mjög óþroskaða lifur sem getur ekki  unnið á
         eiturefnum.
2.      Ef um mjög háan eða mjög lágan blóðþrýsting er að ræða.
3.      Ef viðkomandi hefur mjög lágan blóðsykur, en þá er betra að fasta með hrárri fæðu heldur en með
         safaföstu.

 

Eftirfarandi fæða hefur verið sérstaklega valin til að hreinsa líkamann af eiturefnum sem valda mörgum krankleikum. Við hreinsunina jafnast sýru- og basastig í líkamanum. Einstaklingur sem fylgir þessari áætlun mun léttast en hafa verður þó í huga að þetta er alls ekki megrunarkúr heldur eingöngu ætlað til að hjálpa fólki að líða betur. Þessi kúr inniheldur aðeins fæðu sem er heilsusamleg og nærandi fyrir líkamann.

Það er ekkert sem heitir að telja hitaeiningar í þessum kúr, þú getur borðað eins mikið og þú vilt af þeirri fæðu sem þú hefur valið þér að fasta á.

Ég legg mikla áherslu á að fólk noti lífrænt ræktaða matvöru eins og mögulegt er, því annars er bara verið að bæta aftur í líkamann því sem hreinsað var út.

Í föstunni leysast efni sem geymd hafa verið í fitufrumunum út í blóðið. Lifrin tekur síðan við þessum efnum og skolar þeim áfram út úr líkamanum. Á meðan lifrin er að hreinsa blóðið geta komið upp einkenni sem yfirleitt ganga yfir á u.þ.b. þremur dögum. Þessi einkenni eru: höfuðverkur, andfýla, hægðatregða og niðurgangur. Eins geta gamlir kvillar skotið upp kollinum eða þeir sem fyrir eru geta orðið verri, eins og t.d. bólur og verkir í liðum. 

Þetta hreinsiprógram er sett upp sem þriggja vikna prógram, en hægt er að breyta því eftir þörfum hvers og eins.  Undirstaðan er að fasta í eina viku en bæta síðan hægt aftur inn í fæðuna í annarri viku. Þriðja vikan fer í að læra að nota það nýja sem þú hefur tileinkað þér svo þú fallir ekki í sama gamla farið aftur.

Í byrjun föstu er einnig algengt að gamlar tilfinningar skjóti upp kollinum. Hafðu ekki áhyggjur, þetta hverfur smám saman eftir því sem á föstuna líður.

Hægt er að drekka jurtate, eins og kamillu og piparmyntu, eins og maður vill á meðan á föstu stendur.  Mikilvægt er að drekka mikið af vatni (með ferskum sítrónusafa) en forðast svart te, kaffi og alla örvandi drykki.

Til að undirbúa föstuna er ágætt að byrja á að sleppa kjöti og fiski í eina viku og tveimur dögum fyrir föstu er nauðsynlegt að maturinn sé hreinn, ferskur og laus við aukaefni.

 

2 DAGAR FYRIR FÖSTU


MORGUNMATUR: Ferskt ávaxtasalat með muldum möndlum.Jurtate og ávaxta- eða grænmetissafi. 

HÁDEGISVERÐUR: Stórt ferskt salat með ólífu- og sítrónu dressingu. Það má setja hnetur, fræ og spírur út á. Einnig er gott að nota söl en þau innihalda mikið af næringarefnum og hjálpa til við að losa út óæskileg efni.

KVÖLDVERÐUR: Sama og í hádeginu.

SNARL: Ávextir og grænmeti skorið niður í stangir, lítið af hnetum og fræjum.

********************************************************************

Dagur 1

Veldu eitthvað af eftirfarandi fæðu til að fasta á:

  • Græn vínber: Borðaðu a.m.k. 3 kíló yfir daginn til að fá sem besta hreinsun.  Borðaðu öll berin með hýði og steinum og búðu til safa úr þeim ef þú getur ekki borðað allt magnið.  Gott er að þvo vínberin upp úr náttúrulegum uppþvottalegi til að ná eiturefnum af.
  • Epli: Rauð eða græn.  Magnið þarf að vera 2 ½ kg á dag.  Borðaðu allan ávöxtinn með hýðinu.  Það má líka búa til safa eða mauk.
  • Melóna  Það má nota hvaða melónu sem er.  Magnið þarf að vera að minnsta kosti 3 kg á dag.
  • Grænmetissafi  Mjög hreinsandi og basísk samsetning sem er búin til úr 1 lítra af gulrótarsafa og 1 lítra af sellerý, steinselju og rauðrófusafa.  Bætið við einum lítra af vatni til að þetta verði samtals 3 lítrar.  Drekktu bolla af safanum á 30 mínútna fresti, þangað til hann er búinn.  Haltu áfram að drekka vatn út daginn.
  • Kalíum soð:  Skerðu lauk og blaðlauk.  Skornar gulrætur eru settar út í ásamt næpu, grænu grænmeti  eins og grænkáli og smá þangi. Bætið við vatni og eldið þangað til allt grænmetið er soðið í gegn.  Fastaðu eingöngu á soðinu og drekktu að minnsta kosti 2 lítra á dag.  Ef þú ert mjög kulvís og það er kalt úti þá er ráðlegt að nota þessa föstu. Þessi blanda hreinsar ekki eins kröftuglega og hinar en virkar samt.
  • Hýðishrísgrjón  Ef þér líður þannig að þú verðir að fá fasta fæðu þá er hægt að fasta á hýðishrísgrjónum, en þú þyrftir að fasta í að minnsta kosti eina viku.  Þessi fasta er mjög einhæf því það eina sem þú borðar eru hrein hrísgrjón, án sósu eða olíu. Þessi fasta virkar vel fyrir fólk sem treystir sér ekki í safaföstu.  Fyrir fólk með of lágan blóðsykur þá viðheldur þetta best blóðsykrinum.


DAGUR 2 og 3

Hér er bara haldið áfram með sömu föstu og byrjað var á. Mikilvægt er að blanda ekki saman grænmeti og ávöxtum á sama degi


DAGUR 4

Dagur 4 er sá dagur sem fastan er brotin. Þetta er gert með því að byrja að borða ferskt grænmeti og ávexti. Ef þú heldur að þú hafir ofnæmi fyrir einhverju þá er þetta rétti tíminn til að prófa það.

Notaðu sama fæði og þú notaðir áður en þú byrjaðir.

Eftir hreinsunina þá er líkaminn mjög viðkvæmur. Því er mjög mikilvægt að borða ekki mjög þungan mat til að byrja með.  Gott er að brjóta föstuna með því að borða kalíum soð.

Hægt er að bæta vítamínum og steinefnum aftur inn í fæðuna í ef þig langar til. Haltu áfram að taka eplaedikið, acidophilus, psyllium fræ og hreinsijurtirnar.   
 

DAGUR 5, 6 og 7

Haltu þig við hrátt fæði eins og á degi 4 og í fjóra daga eftir að hætt er að fasta.

Hægt er að halda áfram föstunni í 1 viku en það fer eftir líkamlegri líðan á meðan á föstu stendur og svo lengi sem fólk fær ekki einhverjar alvarlegar aukaverkanir.
 

DAGUR 8-14

Hér ætti að borða 50% hrátt fæði og 50% soðinn mat. Borðaðu lítið af próteini til að byrja með og lítið af korni og hveiti vegna þess að það er svo þungmelt.
 

MATUR SEM Á AÐ FORÐAST

Mjólk, smjör, ostur, egg, jógúrt, kjöt og allar kjötafurðir, sykur og allt sem inniheldur sykur, salt, kaffi, te (nema jurtate), gos, franskar, snakk, dósa eða frosinn matur, kökur og sætabrauð, vín og allt sem er ekki alveg náttúrulegt.
 

BÆTIEFNI

Á meðan á föstu stendur er ekki æskilegt að taka vítamín, steinefni og jurtir nema það sé tilgreint, þar sem þú ert að hvíla meltinguna.

Eplaedik (1 msk) er gott að drekka ásamt hunangi (1 tsk) í heitu vatni 1 - 2 á dag. Þetta er góður basískur og hreinsandi drykkur.

Acidophilus má taka til að við halda réttu jafnvægi í flórunni. Ekki taka hann alla föstuna ef þú færð niðurgang.

Psyllium fræ duft (1 tsk í glas af vatni) 2 - 4 sinnum á dag. Duftið gefur góðar, róandi trefjar í meltinguna og dregur til sín eiturefni og viðheldur eðlilegri losun.

Hægt er að taka jurtir til að örva hreinsun.

Til baka

Bætt í körfu!

Jurtaapótek

jurtaapotek@jurtaapotek.is

Laugavegi 70
101 Reykjavík
Sími 552 1103

Opnunartími

10-18 virka daga
10-16 föstudaga
11-14 laugardaga

© Jurtaapótek 2025, allur réttur áskilinn